Dekurhelgi og pararáðgjöf á Hólum/aflýst v. Covid
Tími og staður
Um viðburðinn
Dásamleg dekurhelgi á Hólum
Í vetur ætlum við að bjóða upp á spennandi og notalegar dekurhelgar sem henta hvort heldur er einstaklingum, pörum eða hópum. Fólk mætir þá seinnipart föstudags og dagskrá lýkur stuttu eftir hádegi á sunnudeginum. Helgarnar byrja á föstudagskvöldi á bjórsmakki og kvöldsnarli, eftir það verður boðið upp á línudansnámskeið til þess að hrista hópinn saman og búa til skemmtilega stemningu.
Daginn eftir byrjum við á morgunverði og svo er haldið í gönguferð um Hólaskóg og nágrenni sem er í útjaðri þorpsins með sérlega fróðum heimamanni sem gjörþekkir skóginn og sögu svæðisins. Svo verður boðið upp á hádegismat.
Seinnipart laugardagsins verður sannkölluð matarupplifun þar sem þemað er villibráð á Hólum. Gestum er þá kennt hvernig villibráðin er meðhöndluð en aðalhráefnið er gæs og hreindýr. Um kvöldið verður svo stórkostlegur villibráðarkvöldverður borinn fram á veitingastaðnum Kaffi Hólum.
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir býður upp á hjónaráðgjöf í Auðunarstofu á laugardeginum. Tímapantanir þegar komið er á staðinn.
Sunnudagurinn er hafinn í rólegheitunum með morgunverði og í kjölfarið verður núvitundarnámskeið og æfingar tengdar því. Þá er í boði helgistund í Hóladómskirkju. Þetta er fullkominn endir á skemmtilegu og fræðandi helgarnámskeiði og skilur fólk eftir í ró og kyrrð. Eftir hádegismat lýkur formlegri dagskrá. Við mælum með því að taka heimferðina í rólegheitunum og nýta daginn til þess að skoða svæðið, kíkja í bakaríið á Sauðárkróki eða til dæmis skella sér í sund á Hofsósi.
Dekurhelgarnar í vetur eru tilvaldar fyrir pör, hjón, einstaklinga sem og fyrirtækja- eða vinahópa og gefa gestum nasaþefinn af því hvernig Hólastemningin er. Einnig höfum við tök á því að klæðskerasníða helgarnar fyrir fólk en við erum í sambandi við góðan hóp af hæfileikaríku fólki á svæðinu sem býður upp á fjölbreytta afþreyingarmöguleika.“